Fundargerð stofnfundar.

 

Laugardagur 25. ágúst 2007.

 

Haldinn er fundur að Skjólsölum 14 í Kópavogi kl. 21.15. Markmið fundar er að stofna félag til að keppa í mýrarbolta á Ísafirði um verslunarmannahelgina 2008 og ár hvert eftir það. Til fundarins eru mættar Ragna Gestsdóttir, Linda Hrönn Gylfadóttir, Elfa Sigurjónsdóttir og Þuríður Björk Sigurjónsdóttir. Áheyrnarfulltrúi er Jóhannes Elíasson.

 

Dagskrá fundarins liggur frammi.

 
  1. Kosning í embætti formanns, ritara, gjaldkera og markaðsfulltrúa og nafngift félagsins.
 

Tillaga kom fram um að nafn félagsins skuli vera Hið íslenska mýrarboltafélag (e) The Icelandic Swamp Soccer Association.  Tillagan er lögð til atkvæðagreiðslu og er hún samþykkt með fyrirvara um að ekki sé annað félag á Íslandi með sama nafni.

 

Áskorun kom fram frá fundarmönnum um að Þuríður myndi bjóða sig fram til formanns.  Lýsti hún því yfir að hún myndi ekki bregðast áskorendum og bauð sig fram til formanns. Var framboð hennar samþykkt með lófataki.  Ragna bauð sig fram sem markaðsfulltrúa og var framboð hennar til þessa ábyrgðarmikla hlutverks samþykkt með lófataki. Linda bauð sig fram sem ritara og var framboð hennar samþykkt með lófataki enda ljóst af hálfu viðstaddra að engin myndi geta gegnt þessu ábyrgðarmikla starfi betur.  Elfa bauð sig fram sem gjaldkera félagsins og var framboð hennar samþykkt með lófataki enda full ljóst að aðrir mættir gætu ekki borið ábyrgð á fjárreiðum félagsins miðað við hina miklu og taumlausu peningaeyðslu sumarið 2007.

 

Stjórn hins nýja félags er þannig skipuð:

Þuríður Björk Sigurjónsdóttir formaður

Linda Hrönn Gylfadóttir ritari

Elfa Sigurjónsdóttir gjaldkeri

Ragna Geststóttir markaðsfulltrúi.

2. Fjölgun þáttakenda og fylgifiska. 

Mættir eru sammála um að mynda tengsl við skipuleggjendur mótsins og hvetja mótshaldara til að stofna unglingamót, samhliða móti fullorðinna.  Formaður kveðst fús til að taka að sér að mynda tengsl hins nýstofnaða félags við mótshaldara á Ísafirði, hvað þetta varðar. Er tillaga formanns samþykkt. Á næsta fundi félagsins mun formaður gera grein fyrir gangi mála hvað þetta varðar.

 

Rætt er einnig um að fá fleiri þátttakendur í Hið íslenska mýrarboltafélag.  Gjaldkeri félagsins lýsir því yfir að tilgangur félagsins sé að efla íþróttina og að auka veg og vegsemd og að vinna að framgangi hennar. Stjórnarmenn allir, lýsa því yfir að unnið verði hörðum höndum að fá fleiri til liðs við hið nýstofnaða félag.  Formaður gerir grein fyrir því að hún sé hugsanlega með um 4 konur sem eru tilbúnar að taka þátt fyrir utan stjórnarmenn.   Aðrir stjórnarmenn gera grein fyrir stöðunni að því er varðar “smölun” í félagið: Ragna; gerir hún grein fyrir að hún sé með hugsanlega 4 konur sem eru tilbúnar að taka þátt og einn karlmann að auki. Linda; gerir hún grein að hún sé með allavega 26 einstaklinga sem eru tilbúnir að taka þátt í mýrarboltamóti árið 2008. Elfa; kveðst hún munu næstu vikur vinna hörðum höndum að því að fá ættingja og vini til að taka þátt.

3. Fjáröflun.

Mættur er til fundar Jóhannes Elíasson.  Lýsir hann yfir ánægju sinni með stofnun hins nýja félags. Kveðst hann reiðubúinn til að kosta för liðsins til Ísafjarðar árið 2008.  Leggur Jóhannes fram gjafabréf fyrir 2 í flug innanlands og jafnframt dagsferð til Kúlusúkk  sem hann kveðst tilbúin til að leggja Hinu íslenska mýrarboltafélagi fram sem hans framlag til stofnun þessa virðingarverða félags.   Formaður leggur til að nafni markaðsfulltrúa verði breytt í “markaðs- og fjáröflunarfulltrúa”. Tillaga formanns er samþykkt með lófataki. Nýr markaðs- og fjáröflunarfulltrúi gerir grein fyrir stefnu sinn í hinu nýstofnaða félagi:  Hún kveðst ætla að fá einn sterkan aðila til að vera “aðal” styrtkaraðili félagsins. Sá aðili fengi nafn sitt á alla búninga.   Mættur, Jóhannes Elíasson lýsir því yfir að hann sé fús að gera félag sitt Hársnyrtistofuna Dalbraut, aðalstyrktaraðila.   Samþykkt er tillaga Jóhannesar með fyrirvara um að aðrir “fjársterkari” aðilar komi ekki inn sem styrktaraðilar. Ragna gerir grein fyrir því sem hún kallar áheitabolta.  Að safna skuli áheitum fyrir hvert skorað mark umfram hitt liðið sem keppir á móti, gildir þetta um öll lið í öllum deildum hins nýstofnaða félag.  Lögð er fram sú tillaga að ræða við eignendur Bang&Olufsen um að styrkja hið ný stofnaða félag og jafnframt eigendur heildverslunarinnar Puma. Formaður lýsir því yfir að hann sé tilbúin að taka að sér það verkefni, sökum tengsla við eigengur Bang & Olufsen og Puma heildverslunarinnar.  Markaðs- og fjáröflunarfulltrúi félagsins kveðst sáttur við þessa skipan þrátt fyrir að gengið sé gróflega inn á verksvið hans. Lýsir hann því yfir að hagur hins nýstofnaða félags sé framar öllu.  Ragna leggur til að áheitum verði safnað varðandi frammistöðu félagsins á mótinu sjálfu, skuli þá einkum verða leitað til náinna fjölskyldumeðlima,svo sem foreldra, tengdaforeldra og systkina, fjársterkra, ekki verra að sögn formanns.  RG leggur til að hafin verði sala á klósettpappír fyrir báða enda fyrir hönd félagsins. Tillagan er samþykkt einróma með lófataki.  RG leggur til að gerð verði heimasíða og verði hún kostuð með sölu á auglýsingum.  Tillaga hennar er samþykkt.

4. Búningar og logo félagsins.

Ákveðið er að enginn ákveðinn litur verði litur félags, heldur verði einkenni félagsins ár hvert skrautlegasti búningurinn, þannig að eftirvænting landsmanna verði fólgin í því í hverju félagið verði en ekki litur félagsins. Ákvörðun um búninga er frestað þar til síðar þar sem slíkt verður að vera í samráði við styrktaraðila.  Ákveðið að RG hafi samband við “lil sis” hvað hönnun á logoi varðar.

 

5. Gistimöguleikar og rúta.

Ákveðið er að markaðs- og fjáröflunarfulltrúi sjái um þessi mál fyrir hönd stjórnar og annarra félagsmanna.

 

6. Þjálfaramál.

 

Formaður lýsir því yfir að hann hafi haft samband við Theodór Sveinjónsson, þjálfara í meistarflokki kvenna hjá Knattspyrnufélaginu Val.  Féllst Theódór á að verða þjálfari félagsins.  Ekki hefur verið rætt um þóknun þjálfara.   Gjaldkeri vill benda á að rætt hefur verið innan stjórnar að veita maka þjálfara kost á að taka þátt í móti án endurgjalds og að slíkt verði ákveðið sem þóknun þjálfara.   Tillaga er borin undir fundarmenn og er hún samþykkt einróma og með lófataki.

 

7. Annað sem stjórnarmönnum dettur í hug.

Formaður félagsins leggur til að ákvæði verði í lögum félags um að maki þjálfara hverju sinni verði heiðursþátttakandi á móti fyrir hönd félags og beri ekki kostnað af þátttöku sinni.  Tillaga er gerð með það að markmiði að fá færustu þjálfara landsins til að þjálfa hið nýstofnaða félag. Tillaga er lögð fram og er samþykkt einróma og með lófataki.

 

RG, MF fulltrúi gerir að tillögu sinni að hún muni sjá um og bera ábyrgð og tryggja að gerð verði heimasíða fyrir hið nýstofnaða félag. Formaður ræðir þessa tillögu við fundarmenn og leggur áherslu á mikilvægi þess að félagið hafi öfluga og vel gerða heimasíðu. Er MF fulltrúa veittur 2ja mánaða frestur til að hrinda þessu í framkvæmd.  

 

Kl. 22.00 er rætt lög fyrir félagið, gert er hlé í 1 klst á meðan lög eru gerð.  Fundur verður aftur kl. 23.00 þann 25. ágúst 2007 þar sem lög félagsins verða lögð fram til samþykktar eða synjunar.

 

Kl. 23.00, laugardaginn 25. ágúst er fundi haldið áfram.

 

Lögð eru fram lög félagsins og þau borin upp til samþykktar eða synjunar.

 

Lög  félagsins eru samþykkt einróma með lófataki.

 

Fundi slitið kl. 23.01.

              


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband