Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Stofnfundur

Hins Íslenska Mýrarboltafélags var haldinn laugardaginn 25. ágúst 2007 heima hjá Þuríði. Mættar voru stofnmeðlimir félagsins: Elfa, Linda, Ragna og Þuríður, ásamt heimilismönnum Þuríðar. Jóhannes var búinn að standa í ströngu allan daginn við að þrífa, versla, grilla og ekki nóg með það, hann að sjálfsögðu gekk frá, keyrði drottningarnar á Papana á Players og ekki stóð á honum að koma þeim safe and sound heim líka! Það er nú bara til eitt eintak af svona mönnum sko :)
En stofnmeðlimir tóku til við það að lærum loknum að semja fundargerð og lög hins nýja félags, meðal helstu atriða var að finna nafn á félagið, hanna logo og búninga, útvega þjálfara, fjölga liðsmönnum og fylgifiskum og er skemmst frá því að segja að þetta var og verður piece of cake!
Mættar skiptu jafnframt með sér embættum og ættu allar stjórnir að vera svona einhuga og sammála í störfum sínum: Þuríður formaður, Elfa gjaldkeri, Linda ritari og Ragna markaðs - og fjáröflunarfulltrúi. Konan með stysta nafnið verður auðvitað að hafa lengsta titilinn, nema hvað!
Var síðan haldið á Players þar sem að náðist að smala saman nokkrum liðsmönnum en ljóst er að betur má ef duga skal, en það eru jú nokkrir mánuðir til stefnu :)

Kveðja Ragna

Upphafið má rekja til....

laugardagsins 11. ágúst 2007. Hin árlega Gayprideganga ásamt tilheyrandi skemmtiatriðum á Arnarhóli var nýafstaðin og undirrituð á leiðinni heim sem leið lá upp Laugaveginn. Þá hringdi gemsinn einu sinni sem oftar og á hinum endanum var Þuríður sem sagðist vera ásamt sínu liði á Kaffi París.  Þannig að stefnu var snarlega breytt og stefnan tekin þangað. Skemmst er frá því að segja að þar sátum við lengi í bongóblíðu og bjórþambi.
Þuríður hóf upp raust sína og fór að segja frá því að "Mýrarboltinn væri sko málið" og "Við erum að fara til Ísafjarðar næstu verslunarmannahelgi". Þar sem undirrituð getur verið áhrifagjörn þegar eitthvað skemmtilegt er í boði þá leist henni bara helvíti vel á þessa fyrirætlan og fór svo að frekari umræðum var framhaldið yfir læri hjá Lindu, þ.e. lambalæri, þó að önnur læri hafi jú að sjálfsögðu verið viðstödd.  Undirrituð skellti sér svo seinna um kvöldið til Grindavíkur, en var í nánu sambandi, þökk sé gemsanum (á ekkert að fara að loka þessu númeri?) og var svo komið að aðrir stofnmeðlimir voru enn við eldhúsborðið hjá Lindu að ræða málin. Var ákveðið að halda stofnfund sem allra fyrst yfir grilli!

Kveðja Ragna. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband