Ávarp formanns

Ágætu landsmenn og kæru félagar í Hinu íslenska mýrarboltafélagi (e) The Icelandic Swamp Soccer Association !

Eins og fram hefur komið í skrifum markaðs- og fjáröflunarfulltrúa félagsins, var félagið stofnað með viðhöfn laugardaginn 25. ágúst s.l.  Eftir að hafa rennt niður grilluðu læri, a la Jói rakari með öllu tilheyrandi, á meðan Jói gekk frá og vaskaði upp (eins og venjulega), var fundur í hinu virðulega félagi settur.  Dagskrá fundarins lá frammi og var reynt að halda henni, þrátt fyrir mikil frammíköll og læti viðstaddra, enda ljóst að fundarmönnum var mikið í mun að hraða stofnun félagsins, enda var stefnan tekin á Players þá um kvöldið til að fagna stofnun félagsins.  Eftir 2ja tíma ströng fundarhöld var lokahönd lögð á lög félagsins, sem eru í átta greinum og verða birt fljótlega á heimasíðu félagsins.  Lög félagsins voru samþykkt einróma og hlaut hver greinanna átta samþykki með háværu og miklu lófataki.  Samkvæmt lögum félagsins er markmið þess að keppa í mýrarbolta ár hvert og efla hina göfugu íþrótt.  Til að ná því markmiði hyggst félagið fjölga félagsmönnum þannig að þeir verði að lágmarki 50 talsins.  Ljóst er að nú þegar hefur Hið íslenska mýrarboltafélag náð markmiði sínu, þar sem fjölskylda virðulegs ritara félagsins telur allavega 50 manns og er þá miðað við móður hennar, systkini hennar, maka og börn.  Þar sem félagið hefur nú þegar náð markmiði sínu er ljóst að kröftum formanns og annarra stjórnarmanna verður varið í önnur verkefni, s.s. að hvetja nýráðinn þjálfara félagsins, Theódór Sveinjónsson þjálfara meistaraflokks kvenna hjá Val, að taka nýja starfið alvarlega og mæta á æfingar!

En hvað er mýrarbolti, kann einhver fávís að spyrja sig ?  Já kæru landsmenn, hvað er mýrarbolti ? Þessari göfugu íþrótt er erfitt að lýsa með orðum og hvet ég því alla landsmenn að fara inn á myrarbolti.com til að kynna sér íþróttina.

Að lokum óskar formaður félagsins öllum félagsmönnum til hamingju með stofnun hins nýja félags og hvetur alla sem áhuga hafa á að taka þátt í keppni í mýrarbolta fyrir hönd Hins íslenska mýrarboltafélags á Ísafirði um verslunarmannahelgi 2008 að hafa samband við einhverja af skvísunum fjórum í stjórn félagsins......

 Kær kveðja

Þurý


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband